Við leggjum ríka áherslu á að lágmarka þau áhrif sem starfsemin hefur á náttúrufar og að viðhalda náttúrulegum fjölbreytileika.
Til að þekkja umhverfisáhrif starfseminnar stundum við margvíslegar rannsóknir og vöktum áhrif, jafnt á undirbúningsstigi nýrra virkjana sem og á rekstrartíma aflstöðva.
Náttúrufars- og umhverfisrannsóknir og vöktun áhrifa eru mikilvægur þáttur í starfsemi fyrirtækisins. Unnið er í samstarfi við leyfisveitendur og aðra hagsmunaaðila og í mörgum tilfellum er framkvæmdin á hendi rannsóknarstofnana eða sjálfstæðra sérfræðinga. Mikill fjöldi skýrslna er gefinn út árlega, þar sem niðurstöður vöktunar og rannsókna á starfssvæðum fyrirtækisins eru kynntar. Nálgast má útgefnar skýrslur á gegnir.is. Hér á eftir eru dæmi um verkefni sem tengjast náttúrufari á áhrifasvæðum okkar.
Fuglar á Þeistareykjum
Náttúrustofa Norðausturlands vaktaði fugla á áhrifasvæði Þeistareykjavirkjunar á meðan á framkvæmdum stóð og sýna niðurstöður rannsóknarinnar að frá 2015 hefur mófuglum fjölgað á Þeistareykjum eftir að hafa fækkað árin á undan.
Eftir er að greina þessar stofnbreytingar á svæðinu og setja í samhengi við stofnþróun mófugla annars staðar í Þingeyjarsýslum og framkvæmdir á Þeistareykjum. Að mati Náttúrustofu er mikilvægt að halda vöktun áfram nokkur ár í viðbót til að efla áreiðanleika slíkrar greiningar.

Stofnstærðarmat í Þjórsá
Rannsóknir á gengd og stofnstærð laxa í Þjórsá undir stjórn Hafrannsóknastofnunar hafa staðið yfir síðustu ár, en sjö aflstöðvar eru á Þjórsársvæði með fjölda veituvirkja sem spanna svæðið frá Hofsjökli niður að Búrfellsstöðvum I og II.
Vonir standa til að innan fárra ára gefi þær nokkuð góða mynd af stærð laxastofnsins og eins verði tengsl netaveiða og stofnstærðar það vel þekkt að hægt verði að fylgjast með breytingum á stofnstærðum út frá netaveiðitölum.
Vegna sérstöðu Þjórsár sem netaveiðiár er verið að reyna að meta stærð laxastofns árinnar samkvæmt hugmyndum Hafrannsóknastofnunar með örmerkingu laxaseiða í einni af þverám Þjórsár, Kálfá. Það er gert með því að örmerkja seiði sem ganga til sjávar og að ári liðnu er borið saman endurheimt hlutfall merktra og ómerktra fiska úr afla og úr fiskiteljara sem settur var upp í Kálfá. Merkingar hófust í Kálfá árið 2012.
Fyrirstaðan við fiskiteljarann í Kálfá nær bakka á milli og því fara engir fiskar þar fram hjá án þess að fara í gegnum teljarann. Í teljaranum eru fiskarnir greindir með myndatöku í merkta og ómerkta fiska. Með því að þekkja heildarfjölda fiska sem gengur í Kálfá, og fjölda merktra fiska af þeim, ásamt upplýsingum um heildarveiði í Þjórsá er hægt með hlutfallsreikningi að leggja mat á stærð laxastofnsins í ánni.
Yfirborðsvöktun á jarðvarmasvæðum
Á Norðausturlandi eru þrjár jarðvarmastöðvar; á Þeistareykjum, við Kröflu og í Bjarnarflagi. Síðustu ár hefur víðtækri vöktun á jarðhitavirkni þessara svæða verið sinnt.
Jarðhitavirkni getur verið breytileg af náttúrulegum ástæðum en einnig vegna jarðhitavinnslu. Síðustu áratugi hefur virknin verið kortlögð og ítarlegar rannsóknir hafa verið framkvæmdar reglubundið, útbreiðsla jarðhitans hefur verið kortlögð og teknar myndir m.a. með hitamyndavél, framkvæmdar hafa verið gasflæðimælingar og sýni tekin úr gufuaugum.
Árlega er grunnvatn í Mývatnssveit, á Þeistareykjum og í Kelduhverfi vaktað í þeim tilgangi að meta áhrif frá affallsvatni frá virkjunum, þar sem gerð er grein fyrir athugunum á efnasamsetningu grunnvatns. Vöktun á grunnvatni í Mývatnssveit hófst í núverandi mynd árið 2003 en árið 2007 í Kelduhverfi. Grunnvatnsstaða og vatnshiti eru skráð með síritandi mælum í völdum grunnvatnsholum.
Árið 2018 var áherslan lögð á Þeistareyki þar sem mælt var koldíoxíðflæði um jarðveg og tekin sýni úr gufuaugum. Til viðbótar við reglulega vöktun var hiti og landslag á Þeistareykjum og á Nyrðri hluta Bæjarfjalls kortlagt með dróna. Tilgangurinn með þessu er að geta skýrt og metið breytingar ef þær eiga sér stað vegna nýkominnar vinnslu á svæðinu. Niðurstöðurnar leggja síðan grunn að frekara eftirliti til framtíðar.

Loftgæði
Fylgst er með styrk brennisteinsvetnis í andrúmslofti vegna jarðhitanýtingar.
Jarðhitalofttegundir, þar á meðal brennisteinsvetni, losna út í andrúmsloftið frá jarðvarmasvæðum, bæði er um að ræða náttúrulegt útstreymi og losun frá aflstöðvum. Landsvirkjun fylgist með styrk brennisteinsvetnis allan sólarhringinn í nágrenni aflstöðva sinna í Mývatnssveit og á Þeistareykjum. Hægt er að nálgast óyfirfarnar mæliniðurstöður 24 stunda hlaupandi meðaltals á tíu mínútna fresti á vef Landsvirkjunar.
Niðurstöður mælinga sýna að styrkur brennisteinsvetnis hækkar tímabundið við mælistöðvarnar í Mývatnssveit þegar kuldaskil myndast í froststillum. Á árinu 2018 var gangsett rannsóknarverkefni til að kanna nánar dreifingu brennisteinsvetnis við þessi ákveðnu veðurskilyrði á svæðinu.