Segment

Önnur 45 MW vél Þeistareykjastöðvar var tekin í notkun vorið 2018, en áður hafði hafði rekstur stöðvarinnar hafist 1. október 2017.

Frá upphafi hönnunar og undirbúnings að uppbyggingu stöðvarinnar hefur meginmarkmiðið verið að reisa hagkvæma og áreiðanlega aflstöð sem tekur mið af umhverfi sínu og náttúru.

Stöðin er að jafnaði rekin á 90 MW afli og eykur rekstraröryggi orkukerfisins á Norðurlandi. Að jafnaði starfa um fimm til sjö manns við rekstur stöðvarinnar. Áreiðanleiki stöðvarinnar hefur frá upphafi verið til jafns við bestu jarðvarmastöðvar sem reknar eru á Íslandi. Þess má geta að framkvæmdakostnaður við verkefnið er innan áætlunar og verkefninu lauk á tilsettum tíma.

Section
Segment

Þeistareykir – framkvæmdir ársins

Segment

Framkvæmdum lauk á árinu

Allt frá upphafi verkefnis var stefnt að því að öllum frágangi, innanhúss sem utan-, lyki þegar stöðin færi í rekstur.

Því var ánægjulegt að sjá stöðvarhússlóð tilbúna að taka á móti vetri, með frágengið snjóbræðslukerfi, malbik og hellur. Þá var lokið við landmótun og sáningu á borteigum og í námum, sem og við uppræktun á beitarlandi sem mótvægi við svæði sem tekin höfðu verið undir mannvirki.

Prófunum á aflvélum lauk á fyrri hluta ársins og var stöðin í tilraunarekstri fram á haust. Orkusvið tók við stöðinni af framkvæmdasviði þann 1. október og var hún þar með komin í almennan rekstur. Öll virkni búnaðar er eins og best getur orðið og truflanatíðni lág eða eins og best gerist með jarðhitastöðvar.

Sumarið 2018 var eins og áður sagði nýtt í lokafrágang á framkvæmdasvæðinu en allt frá upphafi framkvæmda hefur verið lögð rík áhersla á að ganga frá öllu raski samhliða framkvæmdum. Með verkefnum ársins voru mörkuð verklok á framkvæmdum tengdum byggingu 90 MW virkjunar á Þeistareykjum.

Segment

Langur og vandaður undirbúningur

Undirbúningur Þeistareykjastöðvar á sér langan aðdraganda og hófst þegar heimamenn stofnuðu fyrirtækið Þeistareyki ehf. árið 1999. Á meðfylgjandi myndskeiði má sjá tímalínu undirbúnings Þeistareykjastöðvar allt frá hugmynd að gangsetningu.

Segment
Section
Segment

Vöktun og mótvægisaðgerðir

Við allan undirbúning og framkvæmdir við Þeistareykjastöð hefur verið tekið mið af sérstöðu svæðisins og áhersla lögð á umhverfismál.

Regluleg vöktun umhverfisþátta hófst árið 2012. Markmiðið með reglubundinni vöktun er að þekkja grunnástand umhverfisþátta svæðisins áður en rekstur virkjunar hefst og vakta þá síðan á rekstrartíma hennar. Nálgast má niðurstöður á vef verkefnisins þar sem einnig má nálgast kynningarmyndbönd um umhverfisvöktun jarðhitasvæða fyrirtækisins. Auk þess eru niðurstöður birtar í grænu bókhaldi.

Á árinu var unnið að fjölmörgum verkefnum er snúa að umhverfismálum. Lokið var við uppgræðsluverkefni sem hófust 2013, en alls hafa verið græddir upp um 160 hektarar af landi til mótvægis við það land sem farið hefur undir mannvirki. Til þessa hefur um 212 tonnum af áburði og um 11 tonnum af fræi verið dreift á áhrifasvæði framkvæmdanna auk þess sem plantað hefur verið um 136 þúsund plöntum.

Fyrirtækið hefur lagt mikla áherslu á góða umgengni um framkvæmdasvæðið á framkvæmdatíma og er einn þáttur þess að ganga jafnóðum frá fullnýttum námum eftir því sem verkinu vindur fram. Einungis þær námur og þeir hlutar námasvæða standa ófrágengin þar sem efnisnámi er ólokið.

Félagið leggur áherslu á að allir verktakar sem koma inn á framkvæmdasvæði fylgi reglum fyrirtækisins í umhverfismálum og vinni í samræmi við þau leyfi og kröfur sem framkvæmdinni hafa verið settar. Umhverfisstefna fyrirtækisins markar ramma um þær kröfur sem fyrirtækið hefur sett sér og sínum verktökum við framkvæmdir en þær eru settar fram í útboðsgögnum og eru þannig hluti af verksamningi Landsvirkjunar og viðkomandi verktaka.

Umhverfisstofnun hefur sinnt umhverfiseftirliti í gegnum framkvæmdatímann með reglulegum heimsóknum á svæðið.

Segment
Segment

Sjálfbærniverkefnið á Norðausturlandi

Samhliða undirbúningi að uppbyggingu Þeistareykjastöðvar var sett af stað svokallað sjálfbærniverkefni.

Það miðar að því að fylgjast með áhrifum framkvæmda við aflstöðina og rekstur hennar á þróun samfélags-, umhverfis- og efnahagsþátta í nærsamfélaginu, þ.e. frá Vaðlaheiði í vestri til Jökulsár á Fjöllum í austri.

Um er að ræða samstarfsverkefni Landsvirkjunar og Landsnets við fyrirtæki, sveitarfélög og aðra hagsmunaaðila sem hefur það meginmarkmið að meta á vísindalegan hátt þau áhrif sem fram koma og munu nýtast við undirbúning og ákvarðanatöku vegna sambærilegra framkvæmda. Þekkingarsetur Þingeyinga rekur verkefnið og nú þegar eru fyrstu niðurstöður aðgengilegar á vef verkefnisins.

Nánar um sjálfbærniverkefnið á Norðausturlandi 

Segment

Verk í náttúru Þeistareykja

 • 2. Rommud-syn-1.jpg
 • 4. landsvirkjun_thr_samkeppni_a-34.jpg
 • 3. Rommud-syn-2.jpg
 • 1. landsvirkjun_thr_samkeppni_a-33.jpg
Segment

Á árinu stóð Landsvirkjun fyrir hugmyndasamkeppni í samvinnu við Hönnunarmiðstöð Íslands, en auglýst var eftir tillögu að hönnuðu verki, eða listaverki, sem staðsett yrði í náttúru Þeistareykja. Markmið keppninnar var að fá fram tillögu að verki sem gæti aukið á upplifun þeirra sem leið eiga um svæðið.

Jón Grétar Ólafsson arkitekt hlaut fyrstu verðlaun fyrir tillögu sína sem bar heitið Römmuð sýn og voru verðlaunin veitt 9. október 2018. Sýning á þeim fjórum tillögum sem komust í úrslit í keppninni var haldin í Hönnunarsafni Íslands 10.-14. október og var aðgangur ókeypis. Tillögurnar voru síðan hafðar til sýnis í Safnahúsinu á Húsavík frá 27. október til ársloka.

Section
Segment

Þeistareykjastöð fyrsta jarðvarmastöðin til að fá GSAP-sjálfbærnimat

Þeistareykjastöð er fyrsta jarðvarmastöð í heimi sem metin er samkvæmt drögum að nýjum GSAP-matslykli um sjálfbærni jarðvarmavirkjana (Geothermal Sustainability Assessment Protocol).

Nýi matslykillinn er unninn í samstarfi Orkustofnunar, Landsvirkjunar, Orkuveitu Reykjavíkur, HS Orku og Umhverfisstofnunar.

Niðurstöður matsskýrslunnar gefa til kynna að undirbúningsferlið við Þeistareykjastöð hafi almennt fallið vel að alþjóðlegum viðmiðum um sjálfbæra þróun samkvæmt sjálfbærnisvísum lykilsins. Af þeim 17 vísum sem metnir voru fengu 11 þeirra hæstu einkunn sem lykillinn veitir, eða proven best practice. Þá þykir verkefnið til fyrirmyndar m.a. hvað varðar samskipti og samráð við hagsmunaraðila og nýtingu á jarðhitaauðlindinni.

Section
Segment

Öryggi í forgangi

Í allri starfsemi fyrirtækisins eru öryggismál forgangsmál, hvort sem um ræðir rekstur stöðva eða framkvæmdir við nýjar virkjanir.

Stefna Landsvirkjunar í öryggismálum er slysalaus starfsemi og vellíðan á vinnustað. Til að ná markmiðum um slysalausa starfsemi vinnur Landsvirkjun eftir svokallaðri núllslysastefnu.

Grundvöllur núllslysastefnunnar er að byggja upp öryggismenningu meðal allra starfsmanna þar sem sammælst er um að öll slys megi fyrirbyggja. Árangursrík núllslysastefna byggir á því að allir taki þátt í framkvæmd hennar á vinnustaðnum, axli þá ábyrgð sem hún leggur þeim á herðar og setji öryggi sitt og annarra á verkstað í forgang.

Allir starfsmenn sem koma á verkstaðinn sitja nýliðanámskeið í öryggis- og umhverfismálum. Á árinu 2018 sátu 235 slíkt námskeið og í lok árs 2018 höfðu 1.052 sótt námskeið. Heildarfjöldi vinnustunda á árinu 2018 voru um 463.000  og frá því framkvæmdir hófust við byggingu stöðvarhúss hafa verktakar unnið um 1.045.000 vinnustundir á Þeistareykjum. Landsvirkjun tekur öll slys, næstum slys og atvik sem verða á vinnusvæðinu alvarlega og leggur áherslu á að halda utan um og bregðast við ábendingum og athugasemdum er snúa að öryggis- og umhverfismálum með það að markmiði að bæta framkvæmdina og gera vinnustaðinn öruggari fyrir starfsmenn og umhverfi.

Segment
Section
Segment

Hönnuðir og verktakar

Hönnuðir og ráðgjafar vegna byggingar 90 MW Þeistareykjastöðvar voru samstarfsaðilarnir Mannvit hf. og Verkís hf. Þeim til aðstoðar voru Tark Arkitektar ehf., Landslag ehf. og Verkfræðistofa Jóhanns Indriðasonar.

Fjölmargir verktakar koma að byggingu Þeistareykjastöðvar og meðal þeirra helstu má nefna:

 • LNS Saga og LNS A/S (nú Munck Íslandi) – Verktaki við byggingu stöðvarhúss og lagningu gufuveitu
 • Jarðboranir ehf. – Borun vinnsluhola
 • Fuji Electric/Balcke-Dürr – Framleiðsla og uppsetning vélbúnaðar og kalda enda
 • ABB – Framleiðsla og uppsetning stjórnkerfis
 • Tamini – Framleiðsla spenna
 • Rafeyri – Stöðvarveitur, þ.e. allur rafbúnaður stöðvarinnar
 • Vélsmiðjan Héðinn – Framleiðsla skilja
 • Undirbúningsframkvæmdir: Að vegagerð kom Mannvit sem hönnuður en verktakarnir Nesey, Höfðavélar, Ístrukkur, Jón Ingi og Árni Helgason að uppbyggingu. Um jarðvegsframkvæmdir á stöðvarhússlóð sá G. Hjálmarsson og Þ.S. verktakar lögðu vatnsveitu.
 • Yfirborðsfrágangur: G. Hjálmarsson sá um yfirborðsfrágang með malbikun og hellulögnum í kringum mannvirki á stöðvarhússlóð.
 • Aðstoð úr nærsamfélaginu: Fjölmargir smærri verktakar og þjónustuaðilar úr nærsamfélaginu hafa verið Landsvirkjun til aðstoðar við uppbyggingu Þeistareykjastöðvar. Án slíkrar aðstoðar er illmögulegt að reisa og reka aflstöð sem þessa og kann Landsvirkjun þeim öllum bestu þakkir fyrir sitt framlag.
Section