Section
Segment

Viðskiptatækifæri Landsvirkjunar eru fjölbreytt

Þau byggja á samspili tækniþróunar, aukinnar þekkingar, uppbyggingar undanfarinna áratuga og hagstæðrar þróunar á mörkuðum fyrir endurnýjanlega orku.

Á Íslandi búum við svo vel að vinna alla raforku úr endurnýjanlegum orkugjöfum.

Með hverju árinu sem líður verða neytendur um heim allan meðvitaðri um mikilvægi sjálfbærrar þróunar á öllum sviðum samfélagsins og gildi þess að minnka þau áhrif sem athafnir mannanna hafa á umhverfið. Samhliða því hefur eftirspurn eftir þjónustu og vörum sem framleiddar eru með endurnýjanlegri orku skapað tækifæri fyrir fyrirtækið til að eiga viðskipti við fleiri og fjölbreyttari viðskiptavini.

Endurnýjanlegir orkugjafar eru hluti af sterkri ímynd Íslands og skapa fjölmörg tækifæri til að auka verðmætasköpun með sjálfbæra nýtingu auðlinda að leiðarljósi. Með fjölnýtingu orku- og efnisstrauma sem losna við vinnslu raforku úr jarðhitaauðlindum opnast tækifæri til að skapa fjölbreytta orkutengda atvinnu m.a. í kringum gagnaver, ferðamál, þörungaræktun og vörur og þjónustu er tengjast heilsu og vellíðan.

Section
Segment

Endurnýjanleg orka fyrir komandi kynslóðir

Section
Segment

EIMUR – bætt nýting orkuauðlinda

EIMUR er gott dæmi um samstarfsverkefni sem snýr að bættri nýtingu orkuauðlinda.

EIMUR hefur komið að mörgum verkefnum síðustu ár, m.a. með kortlagningu náttúruauðlinda á Norðausturlandi með áherslu á sjálfbæra nýtingu, hugmyndasamkeppni um nýtingu lághitavatns, hugmyndasamkeppni um matvælaframleiðslu með jarðvarma, sumarskóla um sjálfbærni og fjölnýtingu og Viltu sigra Eiminn?, verðlaunum sem voru veitt fyrir bestu hugmynd verkefnis er tengdist sjálfbærni, aukinni nýtingu auðlindastrauma og/eða samspili orku, umhverfis og samfélags.

Með hagkvæmni að leiðarljósi er hægt að nýta enn betur þau tækifæri er tengjast endurnýjanlegum orkugjöfum, bæði fyrir Ísland innanlands og á heimsvísu. Markaðs- og viðskiptaþróunarsvið Landsvirkjunar mun halda áfram að stunda skipulega alþjóðlega markaðssókn gagnvart skilgreindum markhópum í þeim iðngreinum sem settar hafa verið í forgang.

Nánar um EIM

Segment

Keppendur í Viltu sigra Eiminn? árið 2018.

Section
Segment

Frá virkjunarkosti til virkjunar eða verndar

Fjölmörg tækifæri eru til aukinnar nýtingar og orkuvinnslu á Íslandi ólíkt því sem þekkist víðast hvar í Evrópu þar sem búið er að nýta flesta orkukosti.

Margra ára rannsóknarvinna liggur að baki hverjum virkjunarkosti og á þeim grundvelli er verkefnið skilgreint með hagkvæmni, sjálfbærni og lágmörkun umhverfisáhrifa að leiðarljósi. Við fyrstu athuganir á virkjunarhugmyndum skipta góðar upplýsingar miklu máli til að móta tilhögun einstakra virkjana og lágmarka umhverfisáhrif eins og kostur er.

Hér á landi er vönduð umgjörð um frekari nýtingu og verndun landsvæða, sem byggir á þremur meginþáttum: rammaáætlun, mati á umhverfisáhrifum og skipulagslöggjöf. Allt eru þetta tæki til að meta hvort áhrif á umhverfi séu of mikil til að ávinningur virkjunar sé ásættanlegur en virkjanaframkvæmdir hafa áhrif á náttúru, hálendi og byggð. 

Nánar um virkjunarkosti

Section
Segment

Græn skírteini eru tækifæri fyrir íslensk fyrirtæki

Landsvirkjun er þátttakandi á markaði með græn skírteini. Undanfarin ár hafa skírteinin fylgt með allri raforku sem fyrirtækið selur á heildsölumarkaði á Íslandi. Þetta fyrirkomulag gerir sölufyrirtækjum kleift að afhenda öllum heimilum og fyrirtækjum upprunavottaða raforku.

Markaður með græn skírteini snýst um að hvetja til umhverfisvænni raforkuvinnslu. Þannig geta raforkunotendur lagt sitt lóð á vogarskálarnar og keypt græn skírteini af fyrirtækjum sem vinna raforku úr endurnýjanlegum orkugjöfum.

Græn skírteini veita íslenskum fyrirtækjum aðgang að alþjóðlegum markaði með grænar vörur og þjónustu. Kaupendur grænna skírteina skapa sér tækifæri því þau auðvelda markaðssetningu í harðri alþjóðlegri samkeppni. Þau eru hluti af grænu bókhaldi fyrirtækjanna og gera þeim kleift að fá alþjóðlegar umhverfisvottanir. Þar sem umhverfisvitund neytenda fer sívaxandi er nú hægt að fá hærra verð en ella fyrir vottaðar umhverfisvænar vörur.

Sala á grænum skírteinum skilar íslenskum orkufyrirtækjum einnig auknum tekjum og tryggir þeim hlut í þeim verðmætum sem græn orka er að skapa endanotandanum. Sala á skírteinunum skilaði fyrirtækinu til að mynda yfir 600 milljónum króna á árinu 2018.