Segment

Eftir aðeins um tveggja ára framkvæmdatíma var Búrfellsstöð II gangsett í júní við hátíðlega athöfn. Af því tilefni lagði forseti Íslands, herra Guðni Th. Jóhannesson, hornstein að stöðinni. Þar með var þessi 100 MW vatnsaflsstöð orðin 18. aflstöð Landsvirkjunar. 

Stöðin var reist neðanjarðar í Sámsstaðaklifi, tæpum tveimur kílómetrum fyrir innan Búrfellsstöð sem var fyrsta aflstöðin sem fyrirtækið reisti fyrir um hálfri öld síðan. 

Segment
Við gangsetningarathöfn 28. júní 2018. Frá vinstri: Gunnar Guðni Tómasson, framkvæmdastjóri framkvæmdasviðs, Hörður Arnarson forstjóri, Ásbjörg Kristinsdóttir yfirverkefnisstjóri, Jónas Þór Guðmundsson stjórnarformaður, Ragna Árnadóttir aðstoðarforstjóri og Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.
Section
Segment

Hámarksnýting auðlindar og aukinn sveigjanleiki í rekstri

Með hlýnun jarðar hefur rennsli í jökulár aukist og var svo komið að Búrfellsstöð annaði ekki að fullu rennsli Þjórsár um svæðið.

Talið var að um 410 GWst rynnu að jafnaði fram hjá stöðinni árlega, en með tilkomu Búrfellsstöðvar II er sú rennslisorka nýtt að stórum hluta eða sem nemur 300 GWst á ári. Gera má ráð fyrir að rennsli um svæðið eigi enn eftir að aukast og var stöðin því hönnuð þannig að hægt væri að bæta við annarri vél síðar meir, þegar þörf krefði, til að tryggja hámarksnýtingu auðlindarinnar.

Búrfellsstöð II býður upp á aukinn sveigjanleika í rekstri og gefur möguleika á viðhaldi mannvirkja núverandi stöðvar án þess að orkuvinnsla skerðist að marki. Er það í samræmi við hlutverk fyrirtækisins, að hámarka afrakstur af þeim orkulindum sem fyrirtækinu er trúað fyrir með sjálfbæra nýtingu, verðmætasköpun og hagkvæmni að leiðarljósi.

Section
Segment

Búrfellsstöð II framkvæmdir á árinu 2018

Segment

Umfangsmiklar framkvæmdir á árinu

Verkís sá um hönnun virkjunarinnar og voru byggingarframkvæmdir í höndum samsteypufyrirtækis Íslenskra Aðalverktaka, Marti Contractors og Marti Tunnelbau.

Verkeftirlit á staðnum var í höndum Landsvirkjunar en Mannvit kom að eftirliti með byggingarframkvæmdum. Andritz Hydro framleiddi vél- og rafbúnað og DSD-NOELL lokur og þrýstivatnspípu.

Fjölmargir starfsmenn komu að framkvæmdum við Búrfellsstöð II á árunum 2016-2018. Þegar mest var voru yfir 240 starfsmenn á verkstað, af um 20 þjóðernum. Þar af voru Íslendingar um og yfir 40% allan framkvæmdatímann.

Af öðrum þjóðernum má nefna Litháa, Portúgali, Pólverja, Slóvaka, Austurríkismenn og Þjóðverja. Fjölmennasti hópur starfsmanna á verkstað var á vegum byggingarverktaka ÍAV Marti. Einnig voru þar hópar erlendra starfsmanna á vegum vél- og rafbúnaðarframleiðandans Andritz Hydro, stálframleiðandans DSD Noell, spennaframleiðandans Efacec og strengjaframleiðandans LS Cable.

Segment

Tímalína framkvæmda við Búrfellsstöð II

Section
Segment

Öryggis- og umhverfismál í fyrirrúmi

Við framkvæmdina voru öryggismál á verkstað höfð í fyrirrúmi til að fylgja eftir núllslysastefnu sem fyrirtækið leggur mikla áherslu á í sínum verkefnum.

Skilyrði var að starfsmenn hefðu setið námskeið í öryggis- og umhverfismálum sem öryggis-, heilbrigðis- og umhverfisfulltrúi Landsvirkjunar hélt á staðnum.

Umhverfisstefnumið verkefnisins eru að lágmarka röskun á umhverfi og umhverfisspor framkvæmdasvæðis. Svæðinu hafði að mestu verið raskað við upphaf framkvæmda. Annars vegar var um að ræða svæði sem raskað var vegna byggingar Búrfellsvirkjunar á sínum tíma og hins vegar vegna þeirra framkvæmda sem farið var í vegna fyrri áforma um stækkun virkjunarinnar.

Öll veitumannvirki ásamt inntakslóni eru hluti af Búrfellsstöð I, auk vegagerðar að framkvæmdasvæðinu. Þá er allt athafnasvæði vegna vinnubúða, steypustöðvar og verkstæða það sama og notað var vegna byggingar stöðvarinnar í upphafi. Frárennslisskurður hafði þegar verið grafinn að stórum hluta og var uppgreftri að hluta komið fyrir á svæðinu meðfram skurðinum.

Verðmæt jarðefni, s.s. mold og svarðlag, voru endurnýtt og gerð var krafa um flokkun sorps í mötuneytum, vinnubúðum og skrifstofum. Tryggt hefur verið að engin röskun verði á náttúrulegum birkiskógi/landnámsskógi og menningarminjum á svæðinu með afmörkun, samráði og upplýsingagjöf.

Section
Segment

Lokafrágangur á verkstað

Frá gangsetningu stöðvarinnar hefur verið unnið að lokafrágangi á mannvirkjum og röskuðu landi.

Þeirri vinnu er nú að mestu lokið en verður áfram unnið að uppgræðslu og umhverfisvöktun á svæðinu samhliða rekstri stöðvarinnar. Einnig verður unnið að frágangi athafna- og vinnubúðasvæða. Verður miðast við að skilja við svæðið með frágangi svo sómi sé að, líkt og tíðkast við umgengni við umhverfi stöðva fyrirtækisins.

Ítarefni um framkvæmdina og helstu kennistærðir Búrfellsstöðvar II

Segment
Segment

Yfirlitsmynd af vinnubúðasvæði, tekin 5. september 2018. Þar voru skrifstofur, mötuneyti og svefnskálar. Auk þess var þar starfrækt heilsugæsla og voru hjúkrunarfræðingar á vakt alla daga vikunnar á meðan framkvæmdir stóðu yfir. Þegar mest var voru yfir 240 starfsmenn á verkstað, af um 20 þjóðernum.