Segment

Loftslagsbreytingar eru ein helsta áskorunin sem heimsbyggðin stendur frammi fyrir og eru kröfur gerðar til fyrirtækja um að leggja sitt af mörkum til þess að sporna við hlýnun jarðar.

Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna númer 13 um loftslagsmál (HM 13) fjallar um aðgerðir á heimsvísu í baráttunni gegn loftslagsbreytingum.

Í október gaf milliríkjanefnd Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (IPCC) út skýrslu sem sýnir glögglega nauðsyn þess að halda hlýnun jarðar sem mest í skefjum.

Takist að halda hlýnun jarðar í 1,5°C verða áhrifin af hitabylgjum, þurrkum, flóðum og áhrif á líffræðilegan fjölbreytileika mun minni en ef hitastig hækkar um 2,0°C. Til að ná 1,5°C markmiðinu þarf að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu um 45% fyrir árið 2030 og kolefnishlutleysi þarf að nást árið 2050.

Uppbygging á endurnýjanlegri raforku er nauðsynleg til að ná þessu markmiði og í skýrslunni kemur fram að 85% af raforku á heimsvísu verði að koma frá endurnýjanlegum orkugjöfum árið 2050. 

Nánar um skýrsluna

Section
Segment

Þátttaka á COP24 í Póllandi

Rögnu Árnadóttur aðstoðarforstjóra var boðið að taka þátt í aðalpallborði 24. þings aðildarríkja Rammasamnings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar, COP24, sem fór fram 2.-14. desember í Katowice í Póllandi. Patricia Espinosa, framkvæmdastjóri Rammasamnings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál (UNFCCC), bauð Rögnu að taka þátt.

Í framsögu sinni sagði Ragna raforkusögu íslensku þjóðarinnar og framtakinu að nýta jarðvarma til hitunar. Aðrir sem höfðu framsögu á pallborðinu, sem fór fram með Talinoa-fyrirkomulaginu, voru umhverfisráðherra gestgjafanna, Henryk Kowalczyk, forsætisráðherra Fiji, Frank Bainimarama og Hindou Oumarou Ibrahim, samhæfingarstjóri hjá Association of Indigenous Women and People of Chad. Ragna tók þátt í tveimur viðburðum á þinginu: fyrrnefndu aðalpallborði annars vegar og fundi á vegum IRENA (International Renewable Energy Agency) hins vegar.

Samkomulag um innleiðingu Parísarsamningsins

Loftslagsráðstefna sameinuðu þjóðanna er þriðja stærsta ráðstefna sem Sameinuðu þjóðirnar halda ár hvert en á þinginu komu saman fulltrúar aðildarríkjanna, sem og valdir fulltrúar fyrirtækja og félagasamtaka.

Áætlað var að 10-20 þúsund manns hefðu komið til Katowice til að sækja ráðstefnuna. Meginverkefni fundarins var að ganga frá samkomulagi um innleiðingu Parísarsamningsins en vinna þar að lútandi hefur staðið allt frá því að hann var samþykktur í París árið 2015. Í lok fundar var reglugerð samþykkt sem skyldaði öll ríki í heimi til að fylgja sömu stöðlum varðandi mælingu á losun gróðurhúsalofttegunda og skilgreina stefnu sína í loftslagsmálum. Ríki heims voru einnig hvött til að herða aðgerðir sínar gegn losun fyrir loftslagsfundinn árið 2020.

Segment
Section
Segment

Aðgerðir fyrirtækisins

Í framhaldi af þingi aðildarríkja Rammasamnings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar í París árið 2015  skrifaði Landsvirkjun undir yfirlýsinguna Caring for Climate og skuldbatt sig meðal annars til að verða kolefnishlutlaust fyrirtæki eigi síðar en árið 2030.

Á árinu 2018 skilaði fyrirtækið í þriðja skipti skýrslu um kolefnislosun sína og aðgerðir í loftslagsmálum til alþjóðasamtakanna CDP. Með vinnslu upplýsinga fyrir skýrsluna og endurgjöf frá CDP hefur fyrirtækið fengið betri sýn á stöðu sína miðað við sambærileg fyrirtæki erlendis og hvar hægt er að gera betur.

Auk meginstarfseminnar, að vinna orku úr endurnýjanlegum orkugjöfum, hefur fyrirtækið unnið að ýmsum verkefnum sem tengjast aðgerðum í loftslagsmálum á Íslandi sem og erlendis á vegum dótturfélagsins Landsvirkjunar Power.

Nánar um aðgerðir Landsvirkjunar í baráttunni gegn loftslagsáhrifum

Section
Segment

Útflutningur á þekkingu Landsvirkjun Power

Landsvirkjun Power, dótturfyrirtæki félagsins, var stofnað fyrir tíu árum til þess að sinna verkefnum Landsvirkjunar á erlendri grundu.

Fyrirtækið veitir erlendum aðilum ráðgjöf og á í samstarfi um þróun vatnsafls- og jarðvarmavirkjana yfir alla virðiskeðju slíkra verkefna frá frumhönnun og fýsileikakönnun í upphafi yfir í útboð, byggingu og að lokum rekstur.

Meðal nýlegra verkefna fyrirtækisins má nefna þróun og fýsileikakönnun fyrir vatnsaflsvirkjanir í Georgíu, undirbúning og framkvæmd útboðs í tengslum við öflun gufu fyrir jarðvarmavirkjun í Eþíópíu, aðstoð við undirbúning og rýni útboðsgagna fyrir vatnsaflsvirkjun í Ástralíu og stuðning við rekstur og viðhald vatnsaflsvirkjana á Grænlandi og fræðslu tengda því.

Nánari upplýsingar má nálgast á heimasíðu Landsvirkjun Power.

Segment
Vatnsaflsstöðin Dariali í Georgíu var gangsett á árinu 2018. Landsvirkjun Power vann að byggingu hennar ásamt verkfræðistofunni Verkís. Myndin er fengin af heimasíðu verkefnisins: http://darialienergy.ge.
Section
Segment

Orkuskipti

Skýrsla um þjóðhagsleg áhrif rafbílavæðingar á Íslandi

Samorka stóð á árinu fyrir gerð skýrslu um þjóðhagsleg áhrif rafbílavæðingar á Íslandi ásamt Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, Orkusetri, Íslenskri Nýorku og Grænu orkunni. Háskóli Íslands og Háskólinn í Reykjavík unnu skýrsluna og var hún gefin út í lok október.

Samkvæmt niðurstöðum skýrslunnar mun rafbílavæðing verða hagkvæm fyrir Ísland til lengri tíma litið og vera mikilvægur þáttur í að markmiðum Parísarsamkomulagsins um minnkun útblásturs gróðurhúsalofttegunda verði náð fyrir árið 2030. Rafbílavæðing hefur einnig önnur jákvæð, óbein áhrif sem snerta þjóðarhag svo sem minni loftmengun og aukið orkuöryggi.

Skýrsla um þjóðhagsleg áhrif rafbílavæðingar á Íslandi

Hleðslurannsókn

Í september 2018 hófst tólf mánaða rannsókn um hleðsluhegðun eigenda rafbíla á Íslandi. Landsvirkjun er aðili að rannsókninni ásamt nokkrum öðrum aðildarfyrirtækjum Samorku. Fyrirtækið styrkti rannsóknina með því að veita starfsmanni aðstöðu á skrifstofu fyrirtækisins. Alls var tvö hundruð eigendum raf- og tengiltvinnbíla boðið að taka þátt í rannsókninni sem kanna á hvernig þeir hlaða bílana sína. Niðurstöður rannsóknarinnar munu veita mikilvægar upplýsingar fyrir áframhaldandi orkuskipti í samgöngum á Íslandi.

Allar nánari upplýsingar um rannsóknina má finna á heimasíðu Samorku

Orkuskipti Landsvirkjunar

Á árinu fjárfesti félagið í fyrsta vetnisknúna rafbíl sínum en kaupin eru liður í orkuskiptum fyrirtækisins. Drægi vetnisknúinna rafbíla er meiri en hefðbundinna rafbíla eða um 5-600 km og engin mengun stafar af notkun þeirra. Fyrirtækið stefnir á að taka fleiri slíka bíla í notkun á komandi árum.

Section
Segment

Magma

Undanfarin tvö ár hefur staðið yfir undirbúningur að uppbyggingu alþjóðlegrar rannsóknamiðstöðvar í jarðhita- og eldfjallafræðum á Kröflusvæðinu eða Krafla Magma Testbed (KMT).

Það er GEORG – Rannsóknaklasi í jarðhita sem stendur að verkefninu með hjálp KPMG, GeoEnergy Consulting og Intellecon LLC. Fjölmargir aðilar frá alþjóðlega vísindasamfélaginu, háskólum og fyrirtækjum hafa sýnt verkefninu stuðning.

Forsögu verkefnisins má rekja til ársins 2009 þegar Landsvirkjun, í samstarfi við Íslenska djúpborunarverkefnið, boraði óvænt niður í kviku við Kröflu. Eitt fyrsta skref KMT verður að bora aftur niður í kvikuna í Kröflu, taka kjarnasýni og gera ýmsar samhliða rannsóknir. Þannig verður hægt að öðlast einstaka þekkingu á hegðun jarðskorpunnar og hvaða áhrif sú hegðun hefur á eldvirkni og jarðhita.

Skrifað undir viljayfirlýsingu

Í október 2018 skrifuðu forsvarsmenn 13 íslenskra stofnana, fyrirtækja og háskóla undir viljayfirlýsingu um að koma KMT verkefninu formlega af stað. Um miðjan nóvember komu svo 70 vísindamenn frá fjölmörgum löndum saman í Reykjavík á alþjóðlegri ráðstefnu til þess að ræða mikilvægi KMT verkefnisins. Á ráðstefnunni kom glöggt fram víðtækur áhugi á verkefninu og hversu mikilvægt vísindasamfélagið telur að veita KMT verkefninu brautargengi, meðal annars með fjárhagslegum stuðningi.

Næstu skref eru að tryggja verkefninu fjárhagsstuðning en áætlað er að það þurfi 25 milljónir dollara, eða um 2,7 milljarða króna á gengi ársins 2018, til þess að hefja verkefnið af krafti. Ljóst er að stuðning þarf frá stofnunum jafnt sem stjórnvöldum, á Íslandi og erlendis, og nú þegar hafa stofnanir og stjórnvöld margra ríkja sýnt verkefninu áhuga.

Nánari upplýsingar má finna á vefsíðu KMT.

Segment
Section
Segment

EIMUR

EIMUR er samstarfsverkefni sem snýr að bættri nýtingu orkuauðlinda og aukinni nýsköpun í orkumálum á Norðurlandi eystra.

Landsvirkjun stendur að verkefninu ásamt Norðurorku, Orkuveitu Húsavíkur og Eyþingi, sambandi sveitarfélaga í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum. Auk þess eru Íslenski jarðvarmaklasinn og Íslenski ferðaklasinn aðilar að verkefninu ásamt atvinnuþróunarfélögum á svæðinu. EIMUR hófst 2017 og er ætlað að standa í þrjú ár.

Meðal áherslna á árinu 2018 var þróun ferðaþjónustupakka sem nefnist Græni túrinn, en í honum felst að unnið er með aðilum í ferða- og orkugeiranum að því að þróa pakkaferðir sem byggja á sjálfbærri nýtingu orkuauðlinda á Norðausturlandi. Rýnihópur prufukeyrði Græna túrinn í október og safnaði gögnum og reynslu til frekari þróunar verkefnisins.

Á árinu fór einnig fram Atvinnu- og nýsköpunarhraðallinn (ANA) en auk EIMS standa að hraðlinum Tækifæri, Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Atvinnuþróunarfélög á Norðurlandi eystra, Háskólinn á Akureyri og atvinnulífið. ANA-hraðallinn er frumkvöðlasamkeppni á Norðausturlandi og fengu að þessu sinni þrjár hugmyndir verðlaun. Nýsköpunarverðlaun voru veitt fyrir hugmynd sem gengur út á ræktun skordýra til fóðurframleiðslu.

Sérstök verðlaun, Eimurinn, voru veitt fyrir bestu hugmyndina sem tengist sjálfbærni, aukinni nýtingu auðlindastrauma og/eða samspili orku, umhverfis og samfélags. Eimurinn var að þessu sinni veittur fyrir sýninguna Living on a Volcano, þar sem jarðhitinn, eldfjöllin og samspil manns og náttúru eru í aðalhlutverki. Loks voru sérstök hvatningarverðlaun veitt fyrir vinnslu á lanólíni úr íslenskri ull sem svo er hægt að nýta í hágæðavörur.

Nánari upplýsingar má finna á vefsíðu verkefnisins

Segment
Í Græna túrnum vinna aðilar í ferða- og orkugeiranum að því að þróa pakkaferðir sem byggja á sjálfbærri nýtingu orkuauðlinda á Norðausturlandi. 
Section
Segment

Útgáfa grænna skuldabréfa

Í mars 2018 varð Landsvirkjun fyrsta íslenska fyrirtækið til að standa að útgáfu grænna skuldabréfa. Útgefandi grænna skuldabréfa fær lán frá fjárfestum þar sem þriðji aðili vottar að andvirði skuldabréfsins verði ráðstafað í verkefni sem hafa jákvæð umhverfisáhrif, svo sem til endurnýjanlegrar og sjálfbærrar orkuvinnslu eins og í tilfelli Landsvirkjunar.

Grænu skuldabréfin voru gefin út á Bandaríkjamarkaði og var mjög vel tekið. Alls bárust tilboð fyrir yfir 700 milljónir Bandaríkjadala, en það samsvarar sjöfaldri eftirspurn, þar sem upphaflega var stefnt að útgáfu skuldabréfa að andvirði 100 milljóna Bandaríkjadala.

Frekari upplýsingar um græn skuldabréf