Segment

Ísland er í sérstöðu í heiminum hvað varðar aðgengi að endurnýjanlegum orkugjöfum en Íslendingar vinna nærri 100% allrar raforku með endurnýjanlegum orkugjöfum. Landsvirkjun vinnur þrjá fjórðu hluta þessarar orku og um sjálfbæra orkuvinnslu okkar má lesa í köflunum um orkuvinnslu og auðlindir.

Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna númer 7 (HM 7) fjallar um að tryggja skuli öllu mannkyni aðgang að öruggri og sjálfbærri orku á viðráðanlegu verði eigi síðar en árið 2030. Innan þessa markmiðs falla meðal annars þau undirmarkmið að hlutfall endurnýjanlegrar orku af orkugjöfum heimsins verði aukið verulega og að alþjóðleg samvinna verði aukin í því skyni að auðvelda aðgengi að rannsóknum og tækni á sviði umhverfisvænnar orku.

Section
Segment

SEforALL

Samtökin SEforALL (Sustainable Energy for All – Sjálfbær orka fyrir alla) eru samtök á vegum Sameinuðu þjóðanna sem stofnuð voru árið 2011.

Á síðastliðnum þremur árum hafa samtökin aukið umsvif sín verulega til að nálgast heimsmarkmið 7 um sjálfbæra orku fyrir alla. Markmið þeirrar vinnu er að tryggja aðgengi mannkyns að orku, tvöfalda hlut endurnýjanlegrar orku í orkuvinnslu í heiminum og tvöfalda framfarir í orkunýtni fyrir árið 2030.

Á árinu 2018 hóf göngu sína hraðall, sem nefnist á ensku People-Centered Accelerator, á vegum SEforALL, í samstarfi við Landsvirkjun og fleiri aðila. Vinnustofa til undirbúnings hraðalsins var haldin á vegum Landsvirkjunar í Kröflu í júní 2017 að viðstöddum framkvæmdastjóra SEforALL, Rachel Kyte. Hraðlinum er ætlað að auka áherslu á kynjajafnrétti, samfélagsþátttöku og valdeflingu kvenna, auk þess að kortleggja hagsmunaaðila og mynda bandalög í þeim tilgangi að stuðla að kerfisbreytingum.

Segment

Frá vinnustofu til undirbúnings hraðalsins í Kröflu árið 2017. Hraðallinn hóf göngu sína á árinu 2018.

Section
Segment

Jafnréttisskóli Sameinuðu þjóðanna

Landsvirkjun bauð nemendum við Jafnréttisskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna í heimsókn í Búrfellsstöð 15.-16. mars 2018.

Jafnréttisskólinn heyrir undir Hugvísindasvið Háskóla Íslands og hefur skólinn að markmiði að þjálfa fólk til starfa í tengslum við jafnréttismál í þróunarlöndum og samfélögum sem verið er að byggja upp eftir átök. Nemendurnir voru að þessu sinni 24 frá 14 löndum, flestir frá Afríkuríkjum.

Hörður Arnarson forstjóri ávarpaði nemendurna og fjallaði um áherslur Landsvirkjunar í jafnréttismálum, en bæði Jafnréttisskólinn og Landsvirkjun eru aðilar að þeim hraðli á vegum SEforALL sem fjallað er um hér að framan. Meðal áherslna SEforALL er bætt aðgengi þróunarlanda að endurnýjanlegri orku og aukinni orkunýtni.

Section
Segment

Þátttaka á COP24 í Póllandi

Rögnu Árnadóttur, aðstoðarforstjóra Landsvirkjunar, var boðið að taka þátt í aðalpallborði 24. þings aðildarríkja Rammasamnings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar, COP24, sem fór fram 2.-14. desember í Katowice í Póllandi. Patricia Espinosa, framkvæmdastjóri Rammasamnings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál (UNFCCC), bauð Rögnu að taka þátt.

Í framsögu sinni sagði Ragna raforkusögu íslensku þjóðarinnar og framtakinu að nýta jarðvarma til hitunar. Aðrir sem höfðu framsögu á pallborðinu, sem fór fram með Talinoa-fyrirkomulaginu, voru umhverfisráðherra gestgjafanna, Henryk Kowalczyk, forsætisráðherra Fiji, Frank Bainimarama og Hindou Oumarou Ibrahim, samhæfingarstjóri hjá Association of Indigenous Women and People of Chad. Ragna tók þátt í tveimur viðburðum á þinginu: fyrrnefndu aðalpallborði annars vegar og fundi á vegum IRENA (International Renewable Energy Agency) hins vegar.

Samkomulag um innleiðingu Parísarsamningsins

Loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna er þriðja stærsta ráðstefna sem Sameinuðu þjóðirnar halda ár hvert en á þinginu komu saman fulltrúar aðildarríkjanna sem og valdir fulltrúar fyrirtækja og félagasamtaka.

Áætlað var að 10-20 þúsund manns hefðu komið til Katowice til að sækja ráðstefnuna. Meginverkefni fundarins var að ganga frá samkomulagi um innleiðingu Parísarsamningsins en vinna þar að lútandi hefur staðið allt frá því að hann var samþykktur í París árið 2015. Í lok fundar var reglugerð samþykkt sem skyldaði öll ríki í heimi til að fylgja sömu stöðlum varðandi mælingu á losun gróðurhúsalofttegunda og skilgreina stefnu sína í loftslagsmálum. Ríki heims voru einnig hvött til að herða aðgerðir sínar gegn losun fyrir loftslagsfundinn árið 2020.

Segment
Ragna Árnadóttir á aðalpallborði 24. þings aðildarríkja Rammasamnings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (COP24). Myndin er fengin af Flickr: © cop24.gov.pl.
Section
Segment

Sjálfbærniverkefnið á Norðausturlandi

Fyrsti ársfundur Sjálfbærniverkefnisins á Norðausturlandi var haldinn í maí 2018. Vefsíða verkefnisins var þar formlega kynnt og opnuð á slóðinni www.gaumur.is. Á síðunni birtast upplýsingar um þróun lykilvísa um samfélag, umhverfi og efnahag á svæðinu frá Vaðlaheiði í vestri til og með Tjörneshreppi í austri. Aðstandendur verkefnisins eru Landsvirkjun, Landsnet, PCC, fulltrúar ferðaþjónustuaðila og Rannsóknamiðstöð Háskólans á Akureyri ásamt sveitarfélögunum Norðurþingi, Skútustaðahreppi og Þingeyjarsveit.

Aðstandendur verkefnisins vonast til þess að gögn sem aflað verður og birt verða á vefsíðunni muni nýtast við rannsóknir og kennslu á öllum skólastigum, stefnumótun opinberra aðila og atvinnuuppbyggingu á svæðinu. Áhersla er lögð á að vefurinn verði í stöðugri þróun og nýjar upplýsingar settar inn reglulega. Hafin er vöktun vísanna sem birtir eru á síðunni.

Samkvæmt skýrslu Rannsóknamiðstöðvar ferðamála (RMF) sem gefin var út í maí 2018, og byggir á könnun sem framkvæmd var sumarið 2017, eru ferðamenn sem heimsækja Kröflusvæðið mjög ánægðir með náttúru svæðisins. Könnunin sýndi einnig fram á að ferðamenn telja að áhrif framkvæmda við Þeistareykjastöð geti tæpast talist umtalsverð. Mannvirki þóttu ekki hafa neikvæð áhrif á upplifun ferðamannanna ef marka má niðurstöður könnunarinnar.

Skýrsluna má nálgast hér

Segment

Sjálfbærniverkefnið á Austurlandi

Sjálfbærniverkefni Alcoa Fjarðaáls og Landsvirkjunar var komið á fyrir ellefu árum til að fylgjast með áhrifum framkvæmda við Kárahnjúkavirkjun og álverið í Reyðarfirði á samfélag, umhverfi og efnahag á Austurlandi. Árið 2017, í tilefni af tíu ára afmæli verkefnis, var gefin út skýrsla með niðurstöðum úttektar þar sem samfélagsvísar verkefnisins voru metnir.

Ársfundur Sjálfbærniverkefnisins á Austurlandi var haldinn 8. maí 2018 og var vel sóttur. Á fundinum voru haldin sex fróðleg erindi, meðal annars um hvernig nýta mætti upplýsingar sem safnað er á vegum verkefnisins betur. Hluti fundarins var nýttur í hópastarf þar sem þátttakendur ræddu hvernig Sjálfbærniverkefnið gæti best nýst Austfirðingum.

Nánari upplýsingar um ársfundinn og annað áhugavert efni um Sjálfbærniverkefnið á Austurlandi má finna á heimasíðu verkefnisins, www.sjalfbaerni.is.

Samhliða ársfundi Sjálfbærniverkefnisins framlengdi Landsvirkjun árlegan stuðning við Landbótasjóð Norður-Héraðs um fimm ár. Sjóðurinn var stofnaður árið 2002 með það að markmiði að sinna uppgræðslu til endurheimtar gróðurlendis sem tapaðist vegna byggingar Kárahnjúkavirkjunar.