Eitt af heimsmarkmiðunum sem Landsvirkjun leggur áherslu á er markmið 5 um jafnrétti (HM 5). Unnið er samkvæmt þriggja ára aðgerðaáætlun sem ætlað er að stuðla að jafnrétti innan fyrirtækisins.
Kraftur í jafnréttisvinnu
Árið hófst á mótun markmiða og mælikvarða í jafnréttismálum sem byggðist á greiningu jafnréttis og hugmyndavinnu starfsfólks frá haustinu 2017.
Í mars var kynnt þriggja ára aðgerðaáætlun jafnréttis, með mælikvörðum og hópi umbótaverkefna sem munu færa fyrirtækið nær þeim markmiðum sem sett hafa verið í jafnréttismálum.
Umbótaverkefnin fóru vel af stað en um er að ræða 17 verkefni sem snerta á mörgum ólíkum þáttum starfseminnar og styðja við þróun vinnustaðarins.
Sjónum var meðal annars beint að ferlinu við ráðningu nýrra starfsmanna og hvernig það gæti betur stuðlað að jöfnum kynjahlutföllum. Sömuleiðis var vinnuumhverfið greint með tilliti til þess hvernig það höfðaði til kynjanna. Skoðað var hverjir væru talsmenn verkefna og málaflokka með tilliti til kynjaskiptingar og hvernig tryggja mætti að sumarstarfsfólki af öllum kynjum væru boðin sambærileg verkefni.
Lokið var við endurskoðun og kynningu nýrrar viðbragðsáætlunar um kynferðislega/kynbundna áreitni eða ofbeldi. Þá hefur verið bætt við í vinnustaðagreiningu vísi sem ætlað er að mæla jafnrétti og samskipti kynjanna. Einnig er fræðsla um jafnrétti orðin hluti af nýliðaþjálfun í fyrirtækinu.
Menning endurspegli jafnrétti
Jafnréttisáherslan, og vinna henni tengd, hefur vaxið að umfangi frá því að verkefnið fór af stað á árinu 2017. Eftir því sem vinnunni miðar áfram er ljóst að mikið verk er enn óunnið.
Að sama skapi sést hversu jákvæð vegferðin er og hvað hún snertir marga þætti vinnustaðarins. Hefðbundin jafnréttisviðmið um kynjahlutföll og jöfn laun eru þröngur mælikvarði ef vinna á með jafnréttismál. Því er leitast við að nálgast jafnréttismálin með breiðri nálgun og hefur því auk þess að skoða launa- og kynjahlutföll verið unnið með menningu, fyrirmyndir, vinnuumhverfi, stefnu og skipulag. Breið nálgun er lykillinn að árangri á þessu sviði.
Mikilvægi þess að skoða betur fyrirtækjamenninguna og vinna frekar með hana hefur komið skýrt fram. Því var tekin ákvörðun um að fara dýpra í jafnréttisvinnuna og horft var sérstaklega á menningu fyrirtækisins og það sem betur má fara. Í því sjónarmiði var unnið með hugmynd um framtíðarvinnustaðinn Landsvirkjun á samráðsfundi haustsins. Á árinu 2019 verður jafnréttismenning ein af þremur stefnuáherslum fyrirtækisins.

Konur í orkumálum
Félagið Konur í orkumálum var stofnað árið 2016 og eru félagsmenn nú yfir 300 talsins.
Landsvirkjun hefur stutt félagið frá stofnun og undirritaði á árinu samning um áframhaldandi stuðning til tveggja ára. Félagið er opið öllum þeim sem starfa við orkumál eða hafa áhuga á orkumálum á Íslandi. Tilgangur félagsins er að efla þátt kvenna í orkumálum og styrkja tengsl þeirra á milli svo og að stuðla að menntun og fræðslu kvenna er varðar orkumál.
Dagana 25.-26. september 2018 var haldin í Kaupmannahöfn ráðstefna um jafnrétti í orkugeiranum á Norðurlöndum. Ráðstefnan var á vegum Nordic Energy Research og var fulltrúum fyrirtækisins boðið að koma og kynna starfsemi Kvenna í orkumálum og vinnu við jafnréttismál innan Landsvirkjunar. Stefnt er að því að stofna regnhlífarsamtök sem tengir saman samtök og verkefni sem stuðla að auknu jafnrétti innan orkugeirans á Norðurlöndum.
