Segment

Íslendingar vinna nærri 100% allrar raforku með endurnýjanlegum orkugjöfum. Landsvirkjun vinnur þrjá fjórðu hluta þessarar orku.

Landsvirkjun starfrækir fimmtán vatnsaflsstöðvar, þrjár jarðvarmastöðvar og tvær vindmyllur á fimm starfssvæðum víðs vegar um landið. Búrfell II er fimmtánda vatnsaflsstöð Landsvirkjunar og var hún gangsett í byrjun júlí 2018.

Við rekstur aflstöðva er lögð áhersla á heildræna sýn þar sem ráðdeild, áreiðanleiki og sambýli starfseminnar við umhverfi og samfélag eru höfð að leiðarljósi.

Section
Segment

Vatnsafl: 13.199 GWst

Raforkuvinnsla í vatnsaflsstöðvum Landsvirkjunar árið 2018 var um 13.199 GWst, miðað við 13.459 GWst árið 2017.

Landsvirkjun starfrækir fimmtán vatnsaflsstöðvar víðs vegar um landið á fjórum starfssvæðum.

Á Þjórsársvæði eru sjö aflstöðvar með samtals 19 aflvélar og fjölda veituvirkja sem spanna svæðið frá Hofsjökli niður að Búrfellsstöð. 

Á Sogssvæði eru þrjár aflstöðvar með samtals átta aflvélar og veituvirki við Þingvallavatn og Úlfljótsvatn.

Segment

Raforkuafhending Landsvirkjunar inn á flutningskerfi Landsnets nam 14.195 GWst árið 2018, sem er 2,1% aukning frá árinu áður.

Laxárstöðvar heyra undir Blöndusvæði og eru aflstöðvar á því starfssvæði þrjár með samtals fimm aflvélar og tilheyrandi veituvirki. Við Blöndustöð spanna veituvirki 25 kílómetra langt svæði frá Reftjarnarbungu niður að Gilsá.

Fjórða starfssvæðið er Fljótsdalsstöð, stærsta vatnsaflsstöð landsins, með 6 aflvélar og umfangsmikil veituvirki, meðal annars jarðgöng sem eru samanlagt um 70 km löng. Í Fljótsdalsstöð voru unnar 4.928 GWst á árinu, eða um 34% af heildarorkuvinnslu Landsvirkjunar.

Ítarlegri upplýsingar um vatnsbúskapinn má finna í kaflanum Auðlindir

Segment

Hlutur vatnsafls í vinnslu Landsvirkjunar 2018
var um 92% og hlutur jarðvarma um 8%.

Section
Segment

Jarðvarmi: 1.132 GWst

Raforkuvinnsla í jarðgufustöðvum Landsvirkjunar árið 2018 var um 1.132 GWst, miðað við 565 GWst árið 2017.

Munar mestu milli ára um tilkomu Þeistareykjastöðvar þar sem unnar voru 672 GWst á árinu. Önnur vélasamstæða Þeistareykjastöðvar var tekin í rekstur 14. apríl og hefur rekstur hennar gengið ágætlega.

Landsvirkjun hefur að leiðarljósi að nýta jarðhita á sjálfbæran og ábyrgan hátt. Hluti þeirrar stefnu er að gæta þess að vatnsforða jarðhitakerfanna sé viðhaldið með góðu jafnvægi á milli nýtingar og innrennslis í kerfið. Sá hluti vökvans sem ekki er nýttur til raforkuvinnslu er skilinn frá og dælt aftur niður í jarðhitageyminn.

Segment

Jarðgufustöðvar Landsvirkjunar í árslok 2018
voru þrjár, í Kröflu, á Þeistareykjum og
Bjarnarflagi, með samtals fimm aflvélum.

Section
Segment

Vindafl: 3,5 GWst

Landsvirkjun rekur tvær vindmyllur í rannsóknarskyni á svæði sem kallast Hafið og er norðan við Búrfell. Hvor vindmylla um sig hefur 0,9 MW uppsett afl. Raforkuvinnsla þeirra var 3,5 GWst á árinu.

Section
Segment
Segment

40 ára rekstur Kröflustöðvar

Á árinu varð Kröflustöð 40 ára gömul, en fyrri vélasamstæða stöðvarinnar hóf raforkuvinnslu í febrúar 1978. Hún hafði verið gangsett í ágúst 1977 en vegna gufuskorts hófst rafmagnsframleiðsla ekki fyrr en í febrúarmánuði árið eftir. Í upphafi gekk á ýmsu við gufuöflun og boranir og komu jarðhræringar og eldgos þar við sögu. Fyrsta eldgosið í röð níu gosa hófst 20. desember 1975 en hinu síðasta lauk í september 1984.

Landsvirkjun keypti Kröfluvirkjun af ríkinu árið 1985. Árið 1996 ákvað Landsvirkjun að ráðast í uppsetningu á seinni vélasamstæðu stöðvarinnar og afla gufu í þágu hennar. Með endurbættri tækni, m.a. skáborun, var þegar hafist handa og gafst sú aðferð vel. Bæði voru nýjar holur boraðar og eldri lagfærðar.

Section
Segment

Úttekt á rekstri Fljótsdalsstöðvar

Í upphafi ársins var birt úttekt á rekstri Fljótsdalsstöðvar byggð á grundvelli hins alþjóðlega matslykils um sjálfbæra nýtingu vatnsafls (e. Hydropower Sustainability Assessment Protocol, HSAP).

Úttektin leiddi í ljós að rekstur Fljótsdalsstöðvar er framúrskarandi hvað varðar sjálfbæra nýtingu vatnsafls og á mörgum sviðum þykja starfsvenjur í Fljótsdalsstöð þær bestu sem fyrirfinnast. Í úttektinni, sem var afar viðamikil, voru teknir til nákvæmrar skoðunar 17 flokkar sem varða rekstur Fljótsdalsstöðvar og eiga að gefa mynd af því hversu vel starfsemin fellur að alþjóðlegum viðmiðum um sjálfbæra þróun.

Niðurstöður voru á þá leið að Fljótsdalsstöð uppfyllti kröfur um bestu mögulegu starfsvenjur (5 í einkunn af 5 mögulegum) í 11 flokkum af þeim 17 sem teknir voru til skoðunar. Í fjórum flokkum uppfyllir Fljótsdalsstöð kröfur um góðar starfsvenjur (4 í einkunn af 5 mögulegum) og í hverjum þeirra er aðeins eitt frávik frá bestu mögulegum starfsvenjum. Tveir flokkar áttu ekki við í þessari úttekt.

Skýrsluna má nálgast hér í heild sinni

Um Hydropower Sustainability Assessment Protocol, HSAP-matslykilinn

Section
Segment

Rekstur aflstöðva

Rekstur stöðva gekk vel á árinu 2018.

Fyrirvaralausar truflanir í aflstöðvum fyrirtækisins voru 95 en 82 á árinu 2017.

Landsvirkjun hefur sett sér það markmið að allar vélar í aflstöðvum fyrirtækisins skuli vera tiltækar 99% af árinu að frátöldum skipulögðum viðhaldstímabilum. Þetta markmið náðist á árinu. Vélar voru tiltækar 99,7% tímans á árinu, en var 99,8% árið 2017.

Eftirlit, viðhald og gæsla aflstöðva var í föstum skorðum á árinu.

Landsvirkjun starfrækir samþætt, vottað gæða-, umhverfis- og öryggisstjórnunarkerfi sem byggist á ISO 9001, ISO 14001, OHSAS 18001 og innra rafmagnsöryggisstjórnunarkerfi (RÖSK) sem uppfyllir kröfur Mannvirkjastofnunar um rafmagnsöryggisstjórnun. Þýska vottunarstofan TÜV SÜD hefur vottað raforkuvinnslu Landsvirkjunar sem græna raforkuvinnslu og auk þess er öryggisstjórnkerfi upplýsingasviðs Landsvirkjunar vottað samkvæmt ISO 27001.

Nánari upplýsingar um vottanir Landsvirkjunar

Section
Segment

Endurbótaverkefni í aflstöðvum

Unnið var að 72 fjárfestinga- og endurbótaverkefnum í aflstöðvum á árinu 2018.

Á árinu var unnið við klössun vélasamstæðu 6 í Búrfellsstöð. Undanfarin ár hefur verið erfitt að finna svigrúm fyrir viðhaldsverkefni í stöðinni vegna mikils álags í kerfinu. Stöðin hefur iðulega verið yfirkeyrð og komin uppsöfnuð þörf fyrir viðhald.

Með tilkomu Búrfellsstöðvar II myndaðist kærkomið tækifæri til að fara í viðhald í gömlu stöðinni og minnka aðeins álag á hana sem hefur verið mikið alveg frá upphafi. Nýtingarhlutfall uppsetts afls í stöðinni á ársgrundvelli hefur iðulega farið yfir 95% sem er einstakt fyrir vatnsaflsstöð af þessari stærð.

Segment
Ráðist var í endurbætur á Búrfellsstöð á árinu. Myndin sýnir upptekt á vél 6.
Section
Segment

Straumlínustjórnun

Árið 2018 var tekin ákvörðun um að innleiða straumlínustjórnun (e. Lean) á aflstöðvum Landsvirkjunar.

Straumlínustjórnun er aðferðafræði sem hjálpar við að koma auga á og eyða sóun og skapa þannig rými til þess að sinna öðrum störfum sem skapa aukið virði. Áhersla er lögð á stöðugar umbætur og að gera litlar breytingar. Með þessari aðferðafræði er lögð sérstök áhersla á að virkja starfsfólkið í hugmynda- og umbótavinnu.

Þekkingin og kennsluefnið sem situr eftir hjá Landsvirkjun verður nýtt til upprifjunar og til þess að kenna nýju starfsfólki aðferðarfræðina og einnig sumarstarfsfólki sem vinnur á þessum starfssvæðum.

Segment