Árið 2018 var gott ár hjá Landsvirkjun. Hornsteinn var lagður að átjándu aflstöð fyrirtækisins, Búrfellsstöð II, og hún gangsett. Öll hönnun og bygging stöðvarinnar tekur mið af áherslum fyrirtækisins um sjálfbæra þróun. Stöðin, sem er neðanjarðar, nýtir þá innviði sem fyrir voru. Hún notar framhjárennsli eldri stöðvarinnar, Búrfellsstöðvar I – fyrstu aflstöðvarinnar sem Landsvirkjun reisti, og stuðlar að bættri nýtingu auðlindarinnar. Þá var seinni áfangi Þeistareykjastöðvar, fyrstu jarðvarmastöðvarinnar sem fyrirtækið reisir frá grunni, tekinn í gagnið.
Raforkusala Landsvirkjunar á árinu var meiri en nokkru sinni fyrr og viðskiptavinum í gagnaversiðnaði fjölgaði. Markmiðið með breiðari hópi viðskiptavina er að auka verðmætasköpun og arðsemi og draga úr rekstraráhættu. Framkvæmdir síðustu ára hafa að mestu leyti verið fjármagnaðar með sjóðstreymi á sama tíma og skuldir hafa markvisst verið lækkaðar. Með aukinni arðsemi og bættri skuldastöðu er lagður grunnur að hærri arðgreiðslum til eigandans, íslensku þjóðarinnar.
Landsvirkjun tekur samfélagslega ábyrgð sína alvarlega nú sem fyrr. Unnið var að krafti að jafnréttismálum og loftslagsmálum og áhersla lögð á að lágmarka umhverfisáhrif af framkvæmdum og starfsemi fyrirtækisins. Félagið hlaut jafnlaunavottun í fyrsta skipti, gullmerki jafnlaunaúttektar PwC í fjórða sinn og gaf fyrst íslenskra fyrirtækja út græn skuldabréf á Bandaríkjamarkaði, svo dæmi séu nefnd.
Landsvirkjun er á réttri leið!
Afkoma Landsvirkjunar á árinu 2018 gefur tilefni til að ætla að rekstur fyrirtækisins sé á réttri leið. Með áframhaldandi aðhaldi í rekstri og aukinni tekjumyndun ættu að skapast aðstæður til þess að auka arðgreiðslur í ríkissjóð á næstunni.
En rekstur Landsvirkjunar einskorðast ekki við krónur og aura. Nýr tíðarandi er uppi í fyrirtækjarekstri og í samfélaginu öllu. Fyrirtæki hafa áttað sig á því að þau verða að horfa á rekstur sinn í víðara samhengi en áður – gildismat neytenda snýst ekki lengur eingöngu um að fyrirtæki sjái þeim fyrir góðum vörum og þjónustu á góðu verði, heldur krefjast þeir þess að fyrirtæki láti gott af sér leiða í samfélaginu öllu.
Þessi nýi tíðarandi gerir kröfu um að rekstur fyrirtækja sé efnahagslega, umhverfislega og samfélagslega sjálfbær. Eins og fyrr segir leggjum við mikið upp úr því að hinn efnahagslegi þáttur sjálfbærrar þróunar sé í lagi hjá Landsvirkjun, en um leið leggjum við áherslu á samfélagsmál, meðal annars með því að setja í gang umfangsmikið átaksverkefni í jafnréttismálum innan fyrirtækisins – og umhverfismál, meðal annars með því að leggja okkar af mörkum í stærsta umhverfismáli mannkynsins – baráttunni gegn áhrifum loftslagsbreytinga. Vinnsla á endurnýjanlegri orku er lykilatriði í þeirri baráttu.
Þannig reynum við að svara kalli nútímans um aukna samfélagslega ábyrgð í rekstri fyrirtækja.
Landsvirkjun er þátttakandi í UN Global Compact verkefni Sameinuðu þjóðanna, sem lýtur að hnattrænum viðmiðum um samfélagslega ábyrgð, og er gerð grein fyrir framvindu í þeim málaflokkum í ársskýrslunni.