Endurnýjanleg orka er unnin frá orkulind sem endurnýjar sig stöðugt þó af henni sé tekið og helst þannig í jafnvægi af náttúrunnar hendi.
Þannig er orka á borð við þá sem unnin er úr vatni, vindi og jarðvarma skilgreind sem endurnýjanleg. Orkulindir jarðefna, t.d. olía, kol og gas, teljast ekki endurnýjanlegar þar sem þær eru aðeins til í takmörkuðu magni.
Endurnýjanleg orka og sjálfbærni
Landsvirkjun vinnur orku úr endurnýjanlegum orkugjöfum.
Jafnframt leggur fyrirtækið áherslu á að nýta auðlindir á sjálfbæran hátt, en hlutverk þess er að hámarka afrakstur af þeim orkulindum sem fyrirtækinu er trúað fyrir með sjálfbæra nýtingu, verðmætasköpun og hagkvæmni að leiðarljósi.
Með sjálfbærri þróun er vísað til þróunar þar sem litið er til lengri tíma og snýst hún um að auka efnahagsleg verðmæti og styrkja samfélagið, jafnframt því að viðhalda gæðum náttúrunnar.
Sjálfbærni og endurnýjanleiki eru tveir ólíkir hlutir.
Sjálfbær orkuvinnsla lýsir því hvernig orkulind er nýtt en endurnýjanleiki lýsir eðli hennar. Endurnýjanlega auðlind er þannig hægt að nýta á sjálfbæran eða ósjálfbæran hátt.
Landsvirkjun hefur skilgreint verklag sitt til að stuðla að sjálfbærri nýtingu auðlinda með því að hafa skýra stefnu um samfélagslega ábyrgð. Þá hefur fyrirtækið jafnframt tileinkað sér innra verklag byggt á alþjóðlegum matslykli (Hydropower Sustainability Assessment Protocol, skammstafað HSAP) um sjálfbæra vatnsorkuvinnslu.
Vatnsárið 2017/2018 í meðallagi gott
Vatnsárið 2017/2018 hófst á góðum októbermánuði sem tryggði að miðlunarstaðan var mjög góð í lok mánaðarins. Innrennsli í upphafi vetrar var undir meðallagi á öllum vatnasvæðum en eftir áramót var innrennsli í meðallagi að jafnaði. Eftir miðjan apríl voraði vestan til á landinu og þegar vika var liðin af maí á því austanverðu. Maí- og júnímánuðir voru mjög hagfelldir rekstri miðlunarlóna, sunnanáttir ríkjandi með úrkomu suðvestanlands og hlýindum fyrir norðan og austan. Í júlí var jökulbráð afgerandi og innrennsli mikið. Ágústmánuður var frekar slakur, sem ekki kom að sök því öll miðlunarlón fylltust í upphafi mánaðarins og innrennsli í september var síðan vel undir meðaltali. Í heildina taldist vatnsárið í meðallagi.
Vöktun vatnshæðar og fleiri umhverfisþátta á vef Landsvirkjunar
Myndin sýnir vatnsstöðu á miðlunarsvæðum Landsvirkjunar eftir mánuðum. Hægt er að smella á mánuðina hér að ofan og fá upplýsingar um stöðuna í vatnsbúskapnum.
Nýtt vatnsár hefst hjá Landsvirkjun 1. október ár hvert. Um það leyti eru miðlanir yfirleitt í hæstu stöðu eftir vorleysingar, jöklabráð sumarsins og upphaf haustrigninga.
Jarðhitaforðinn 2018
Markmið fyrirtækisins er að nýta jarðhitaauðlindina á sjálfbæran og hagkvæman hátt. Landsvirkjun starfrækir þrjár jarðvarmastöðvar; Kröflustöð, Bjarnarflagsstöð og Þeistareykjastöð. Stundaðar eru umfangsmiklar rannsóknir á nýtingu jarðhita á þessum svæðum, bæði í tengslum við núverandi rekstur og vegna mögulegrar framtíðarnýtingar á öðrum svæðum.
Við nýtingu jarðhitaauðlindarinnar er jarðhitavökvi sem samanstendur af gufu, vatni og gasi tekinn upp úr jarðhitageymi á um 2.000 metra dýpi. Orkan er unnin úr gufunni. Stærstum hluta vatnsins er dælt aftur niður í jarðhitageyminn (djúplosun) eða því veitt í yfirborðsvatn meðan gasið fer út í andrúmsloftið.
Á árinu 2018 voru 7.755 þúsund tonn af gufu notuð til að vinna 1.132 GWst af raforku á Mývatnssvæðinu (Krafla, Bjarnarflag og Þeistareykir). Magn gufu og raforkuvinnsla jókst nokkuð árið 2018 með tilkomu vélar 2 á Þeistareykjum. Þá féllu til við vinnslu 16.575 þúsund tonn af þétti- og skiljuvatni. Þá var 12.245 þúsund tonnum af skilju- og þéttivatni veitt aftur niður í jarðhitageyminn.
Landsvirkjun hefur að leiðarljósi að tryggja örugga og sjálfbæra jarðvarmavinnslu og draga úr umhverfisáhrifum sem henni fylgja.
Auðlindir
Við vinnum orku úr endurnýjanlegum orkulindum. Endurnýjanleg orka er unnin frá orkulind sem endurnýjar sig stöðugt þótt af henni sé tekið og helst þannig í jafnvægi frá náttúrunnar hendi.