Efnahagsreikningur
Heildareignir Landsvirkjunar voru 4.451 m. USD í árslok 2018. Í árslok nam handbært fé 116 m. USD. Hækkun rekstrarfjármuna milli ára má að mestu rekja til umfangsmikilla fjárfestinga í nýjum virkjunum síðustu ára.
Vaxtaberandi skuldir námu 2.001 m. USD í árslok 2018 og hafa lækkað um 168 m. USD frá árslokum 2017. Að teknu tilliti til handbærs fjár námu nettó skuldir Landsvirkjunar 1.885 m. USD í árslok og hafa lækkað um 158 m. USD frá árslokum 2017. Lækkun nettó- og vaxtaberandi skulda milli ára skýrist að mestu af niðurgreiðslu skulda.
Landsvirkjun hefur lagt mikla áherslu á að lækka skuldir síðustu ár. Nettó skuldir eru vaxtaberandi skuldir að frádregnu handbæru fé fyrirtækisins. Frá áramótum hafa nettó skuldir lækkað um 158 m. USD. Umfangsmiklu framkvæmdatímabili er nú senn að ljúka en fjárfest var fyrir 151 m. USD á tímabilinu. Þar ber hæst bygging tveggja virkjana, Þeistareykjastöðvar og Búrfellsstöðvar II, sem báðar hafa nú verið teknar í fullan rekstur. Fjármunamyndun fyrirtækisins (handbært fé frá rekstri) var um 296 m. USD á tímabilinu og stóð því að fullu undir fjárfestingum tímabilsins.
Kennitölur
Skuldsetning samstæðunnar, mæld á móti rekstrarhagnaði fyrir afskriftir (nettó skuldir/EBITDA), lækkar úr 5,9x í árslok 2017 í 4,8x í árslok 2018. Skammtímamarkmið Landsvirkjunar hefur verið að ná skuldahlutfallinu niður fyrir 5x EBITDA, sem hefur nú tekist. Þessi áfangi mun veita Landsvirkjun meira svigrúm til að greiða eigendum arð og endurfjármagna erlendar skuldir til langs tíma á hagstæðum vaxtakjörum.
Hlutfall veltufjár frá rekstri (FFO) á móti nettó skuldum fer úr 13,8% í árslok 2017 í 16,8% í árslok 2018. Vaxtaþekjan (EBITDA/nettó vaxtagjöld) lækkar í 4,8x en var 5,5x í árslok 2017. Hlutfall veltufjár frá rekstri (FFO) á móti vaxtagjöldum lækkar úr 4,3x í lok árs 2017 í 3,7x í árslok 2018.
Arðsemi eiginfjár reiknast út frá hagnaði en gangvirðisbreytingar innbyggðra afleiða og annarra afleiða, ásamt gjaldeyrismuni, getur haft umtalsverð áhrif á niðurstöðuna. Arðsemi eiginfjár var jákvæð um 5,5% fyrir árið 2017 og jákvæð um 5,9% árið 2018.
Fylgiskjöl
Hér má sækja ársreikning 2018 á rafrænu formi. Skjölin innhalda annars vegar ársreikninginn í heild sinni í PDF-skjali og hins vegar helstu stærðir í Excel-skjali.