Áhættustýring í síbreytilegu umhverfi
Fyrirtækið hefur komið sér upp formlegu ferli áhættustýringar til að draga fram þá þætti sem mestu máli skipta. Stjórnendur og starfsmenn Landsvirkjunar auðkenna þar fjárhagslega og ófjárhagslega áhættu félagsins og leggja mat á mikilvægi hennar.
Niðurstöður eru skráðar í áhættuskrá fyrirtækisins og þær notaðar til að ákvarða viðeigandi aðgerðir og stýringar vegna mögulegra áhrifa á ímynd, fjárhag, heilsu og öryggi, umhverfi og hlítingu.
Stýring fjárhagsáhættu
Fjárstýring ber ábyrgð á greiningu, stýringu og upplýsingagjöf varðandi fjárhagslega áhættu félagsins. Fjárhagsleg áhætta þess greinist í markaðsáhættu, lausafjáráhættu og mótaðilaáhættu.
Markaðsáhætta
Markaðsáhætta félagsins er einkum þrenns konar:
-
Álverðsáhætta vegna álverðstengdra raforkusamninga
-
Vaxtaáhætta vegna lána félagsins
-
Gjaldmiðlaáhætta vegna lána og sjóðstreymis
Fyrirtækið hefur markvisst unnið að því að draga úr markaðsáhættu undanfarin ár. Í þeim tilgangi hefur hlutfall Bandaríkjadals og fastra vaxta verið aukið umtalsvert. Jafnframt hefur verið unnið að því að draga úr vægi álverðstengingar í tekjum af raforkusölu en nýir samningar hafa ekki verið með tengingu við álverð.
Í nóvember 2019 tekur gildi endurnýjaður raforkusölusamningur þar sem hætt verður með áltengingu. Það mun leiða til þess að markaðsáhætta rekstrartekna vegna breytinga á álverði minnkar.
Álverðsáhætta
Félagið ber markaðsáhættu vegna breytinga á álverði en um einn fjórði af rekstrartekjum (fyrir álvarnir) er tengdur álverði.
Félagið hefur því gert afleiðusamninga til að treysta tekjugrundvöll sinn og draga úr sveiflum. Slíkir samningar fela í flestum tilvikum í sér að álverð er fest á ákveðnu bili. Félagið verður því af tekjum ef álverð hækkar en tryggir um leið betri tekjur ef álverð lækkar.
Settar hafa verið inn varnir fyrir um 67% af áætluðu sjóðstreymi ársins 2019 og um 25% fyrir árið 2020. Í árslok 2018 var gangvirði samninga vegna álvarna jákvætt um 8,4 m. USD (2017 var það neikvætt um 16,1 m. USD).
Vaxtaáhætta
Landsvirkjun býr við vaxtaáhættu vegna vaxtaberandi eigna og skulda.
Vaxtaberandi eignir og skuldir félagsins bera bæði fasta og breytilega vexti og eru gjaldmiðlaskiptasamningar með skiptum á bæði gjaldmiðlum og vöxtum nýttir til stýringar á vaxtaáhættu. Engir vaxtaskiptasamningar voru í gildi í árslok 2018 (2017: neikvætt um 0,7 m. USD). Áhætta félagsins felst í mögulegri hækkun vaxta á skuldir með breytilega vexti sem leitt getur til aukins fjármagnskostnaðar.
Að teknu tilliti til skiptasamninga var hlutfall fjárskulda með fasta vexti um 73% í árslok 2018 (2017: 68%). Í árslok 2018 var áætlað gangvirði vaxtaberandi skulda um 145 m. USD hærra en bókfært verð þeirra (2017: 173 m. USD hærra) sé núvirt með vaxtarófi undirliggjandi mynta án álags. Eftirfarandi mynd sýnir skiptingu vaxtaberandi skulda að teknu tilliti til gjaldmiðlaskiptasamninga.
Gjaldmiðlaáhætta
Gjaldmiðlaáhætta er sú áhætta að fé tapist vegna óhagstæðra breytinga á gengi gjaldmiðla. Gjaldmiðlaáhætta félagsins hlýst af greiðsluflæði, eignum og skuldum sem og af viðskiptum í öðrum myntum en starfrækslumynt.
Starfrækslumynt Landsvirkjunar er Bandaríkjadalur og myndast gjaldmiðlaáhætta af sjóðstreymi og opinni stöðu efnahagsreiknings í öðrum myntum en Bandaríkjadal. Tekjur félagsins eru að mestum hluta í Bandaríkjadal. Aðrar tekjur eru helst í íslenskum og norskum krónum en gjaldmiðlaáhætta vegna þessara mynta er takmörkuð vegna gjalda í íslenskum krónum og þar sem tekjur í norskum krónum eru hlutfallslega litlar.
Dregið er úr gjaldmiðlaáhættu vegna afborgana og vaxtagreiðslna með notkun gjaldmiðlaskiptasamninga. Gangvirði gjaldmiðlaskiptasamninga var neikvætt um 3,7 m. USD í árslok 2018 (2017: jákvætt um 18,2 m. USD).
Uppgjörsáhætta félagsins tengd breytingum á gengi myndast helst vegna skulda í evrum sem eru til langs tíma.
Myndin fyrir neðan sýnir skiptingu vaxtaberandi langtímaskulda án skiptasamninga.
Lausafjáráhætta
Lausafjáráhætta felur í sér hættu á tapi ef félagið getur ekki staðið við skuldbindingar sínar á gjalddaga.
Landsvirkjun takmarkar lausafjáráhættu með því að tryggja að nægt laust fé sé til staðar á hverjum tíma til að standa við skuldbindingar. Til að jafnvægi sé á milli skuldbindinga og væntra tekna er lögð áhersla á trygga lausafjárstöðu fyrirtækisins í formi handbærs fjár og aðgengis að veltilánum.
Í árslok 2018 nam handbært fé um 116 m. USD (2017: 127 m. USD) en ef tekið er tillit til óádreginna veltilána (250 m. USD og 12.000 m. ISK) hefur Landsvirkjun aðgang að alls um 469 m. USD (2017: 548 m. USD). Sjóðstreymi frá rekstri og dreifðar endurgreiðslur, ásamt góðri lausafjárstöðu og aðgengi að lánalínum, tryggir greiðsluhæfi fyrirtækisins að lágmarki út árið 2020.
Mótaðilaáhætta
Mótaðilaáhætta felur í sér hættu á að gagnaðili samnings uppfylli ekki ákvæði hans.
Mótaðilaáhætta félagsins verður fyrst og fremst til vegna raforkusamninga, afleiðusamninga fyrirtækisins og handbærs fjár.
Um verulegar fjárhæðir getur verið að ræða en Landsvirkjun takmarkar mótaðilaáhættu t.d. með kröfu um tryggð lágmarkskaup í raforkusamningum, ásamt því að fara fram á ábyrgðir frá viðskiptavinum. Þá er gerð krafa um að mótaðilar séu með lánshæfiseinkunn í fjárfestingaflokki þegar kemur að vörslu handbærs fjár og við gerð afleiðusamninga.
Fjármögnun
Landsvirkjun leggur áherslu á tryggt aðgengi að fjármagni og fjölbreytt aðgengi að lánsfé.
Þannig hefur fyrirtækið sótt fjármagn með útgáfu skuldabréfa á innlendum og erlendum mörkuðum, með lántöku frá Evrópska fjárfestingabankanum (EIB) og Norræna fjárfestingabankanum (NIB) og í gegnum verktakafjármögnun í Evrópu og Japan. Þá hefur fyrirtækið aðgang að veltilánum frá viðskiptabönkum sínum.
Á árinu 2018 gaf Landsvirkjun í fyrsta skipti út græn skuldabréf að fjárhæð 200 m. USD í gegnum lokað útboð á Bandaríkjamarkaði (USPP) og var þar með fyrsti útgefandi grænna skuldabréfa á Íslandi. Landsnet dró á lán frá Norræna fjárfestingabankanum (NIB) að fjárhæð 40 m. USD. Lántökur á árinu 2018 námu samtals 267 m.USD (2017: 209 m. USD). Afborganir langtímalána voru 405 m. USD (2017: 228 m. USD) en Landsvirkjun fyrirframgreiddi lán og skuldabréf að fjárhæð 95 m. USD á árinu.
Vaxtaberandi skuldir félagsins námu 2.001 m. USD í árslok 2018 (2017: 2.169 m. USD). Dregið er úr áhættu tengdri endurfjármögnun með jafnri dreifingu afborgana og með hæfilegum líftíma útistandandi lána. Veginn meðallíftími vaxtaberandi skulda er 5,1 ár (2017: 5,3 ár) og hlutfall vaxtaberandi skulda á gjalddaga innan 12 mánaða er 9,6% (2017: 13%).
Undanfarin ár hefur félagið lagt áherslu á að breyta lánasafni sínu og er hætt að taka lán með ríkisábyrgð. Auk þess hefur fyrirtækið unnið markvisst að því að afnema ríkisábyrgð af útistandandi skuldum þar sem því verður við komið. Höfuðstóll skulda með ríkisábyrgð fer lækkandi og er síðasta lán með ríkisábyrgð á gjalddaga 2026. Í lok árs 2018 voru 40% af skuldum Landsvirkjunar með ríkisábyrgð. Fyrirtækið greiðir ábyrgðargjald til íslenska ríkisins af skuldum þess sem eru með ríkisábyrgð.
Fyrsta íslenska fyrirtækið til að gefa út græn skuldabréf
Í tengslum við heimsmarkmið sameinuðu þjóðanna gaf Landsvirkjun í mars 2018 út græn skuldabréf að fjárhæð 200 m. USD í gegnum lokað útboð á Bandaríkjamarkaði (USPP).
Alls bárust tilboð fyrir yfir 700 milljónir Bandaríkjadala, en það samsvarar sjöfaldri eftirspurn, þar sem upphaflega var stefnt að útgáfu skuldabréfa að andvirði 100 milljóna Bandaríkjadala.
Skuldabréfin eru fyrstu grænu skuldabréf fyrirtækisins og var Landsvirkjun jafnframt fyrsta íslenska fyrirtækið til að gefa út græn skuldabréf. Skuldabréfin voru gefin út undir grænum skuldabréfaramma (e. Green Bond Framework) Landsvirkjunar en andvirði þeirra hefur að fullu verið ráðstafað til byggingar Þeistareykjavirkjunar og stækkunar Búrfellsvirkjunar. Bæði verkefnin uppfylla skilyrði græna skuldabréfarammans um val á verkefnum og takmarkanir á losun CO2.
Í græna skuldabréfarammanum er kveðið á um árlega skýrslugjöf en nánari upplýsingar má finna á vefsíðu Landsvirkjunar.

Signý Sif Sigurðardóttir, forstöðumaður fjárstýringar, Ólafía Harðardóttir, yfirmaður sjóðastýringar, Rafnar Lárusson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs og Jóhann Þór Jóhannsson, yfirmaður lánamála. Myndina tók Haraldur Guðjónsson, ljósmyndari Viðskiptablaðsins.
Fylgiskjöl
Hér má sækja ársreikning 2018 á rafrænu formi. Skjölin innhalda annars vegar ársreikninginn í heild sinni í PDF-skjali og hins vegar helstu stærðir í Excel-skjali.